Hugmyndafræði leikskólans

Sjálfræði, umhyggja og virðing eru einkunnarorð leikskólans. Með þessi orð að leiðarljósi leggjum við áherslu á að hvetja og styðja börn í leik og starfi. Í Læk er lagt upp með lýðræðislega nálgun og þannig komið til móts við þarfir hvers einstaklings. 

Lækur vinnur í anda hugsmíðahyggju sem sækir kenningar frá Dewey, Piaget og Vygotsky.

  • Námsumhverfi sem stuðlar að virkri uppbyggingu þekkingar hjá hverju barni.

  • Námsumhverfið er auðugt, námshvetjandi og opið og sem líkast raunverulegu umhverfi.

  • Námið er skipulagt þannig að gert sé ráð fyrir virkri þátttöku barnsins í uppbyggingu þekkingar.

  • Tekið er tillit til þekkingar og reynslu barnsins og hún nýtt til að bæta við þekkingu með því sem það sér og túlkar.

  • Verkefnin sem unnin eru í leikskólanum eru í samhengi og samræmi við raunveruleg verkefni sem unnin eru utan veggja leikskólans.

  • Kennarar hjálpa börnum að vera meðvituð um nám sitt og hafa þannig stjórn á því.

Lækur notar kennsluhætti sem kallast einstaklingsmiðað nám og sækja kenningar til Howard Gardner, Dewey, Montessori og Piaget.  Hugtakið vísar til skipulags skólastarfs sem tekur mið af námslegum þörfum hvers einstaklings fremur en hópa. Barnið og foreldrar þess hafa áhrif bæði á inntak og námsaðferðir. Barnið vinnur sjálfstætt og í samvinnu við aðra. Kennarar og börn bera sameiginlega ábyrgð á náminu. Dæmi um vinnu eru námssvæði, lausnaleitanám t.d. barnaþing, rannsóknarhópar, valverkefni og ferilmöppur. Annað nátengt hugtakinu um einstaklingsmiðað nám er skóli án aðgreiningar sem líka tengist grunngildum okkar um jafnrétti og jafnan rétt til þátttöku. Skóli án aðgreiningar kom í kjölfar yfirlýsinga Barnasáttmálans þar sem kveðið er á um að aðildarríki viðurkenni rétt barns til menntunar og að öll börn njóti sömu tækifæra.  Þannig er Lækur leikskóli sem án aðgreiningar nýtir sér einstaklingsmiðað nám til að ná sínum markmiðum