Markmiðið með foreldrasamstarfi er meðal annars:
- að rækta samvinnu og samskipti leikskóla og heimilis
- að veita foreldrum upplýsingar um starfsemi leikskólans og fá upplýsingar um barnið frá foreldrum
- að stuðla að þátttöku foreldra í starfi leikskólans
Leikskólinn er lögum samkvæmt fyrsta skólastigið í menntakerfinu og sér um nám barna á leikskólaaldri. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna, leikskólanám er viðbót við uppeldi þeirra en er á engan hátt ætlað að koma í stað þess. Á þessum grundvallaratriðum byggist foreldrasamvinna. Mikilvægt er að foreldrar þekki kennara barnsins og annað starfsfólk skólans. Samskiptin þurfa að byggjast á gagnkvæmri virðingu og trausti.
Meginhlutverk leikskóla felst í því að veita börnum leikskólamenntun. Leitast er við að koma til móts við óskir foreldra svo framarlega að það komi ekki niður á gæðum í starfi leikskólans, aðbúnaði og umönnun barnanna. Dagleg samskipti og upplýsingastreymi milli foreldra og leikskóla eru mikilvægir þættir sem stuðla að jákvæðu og traustu sambandi.