Enginn nær að aðlagast nýrri menningu og þjóðfélagi hindrunarlaust en ferlið verður sársaukafullt ef 

meginþorri manna hefur ekki til að bera 

skilning, virðingu og umburðarlyndi. (Kristín Njálsdóttir, 2001).


Leikskólinn Lækur vinnur samkvæmt aðalnámskrá leikskóla. Þar sem skólanum er skylt að laga sig að fjölþjóðlegum kröfum endurnýjar bæjarstjórnin sífellt fjölþjóðlega stefnu sína til þess að koma til móts við félagslegar breytingar. Þjóðfélagslegar aðstæður skapa menningu. Við fáum menningu okkar í arf frá forfeðrum okkar og leikskólar gegna þýðingarmiklu hlutverki við að fleyta þeirri menningu áfram til komandi kynslóða. (Dewey, 2006). Menningin þróast stöðugt og verður fyrir margvíslegum áhrifum af þjóðfélaginu og breytilegum hugmyndum og hugsunum fólks. Sum þjóðfélög hafna róttækum breytingum en önnur hins vegar vaxa og þróast á nýjan hátt. 

Með því móti getur fólk orðið fyrir sams konar áhrifum en samt brugðist við þeim með ólíkum hætti. Samt sem áður er það svo að ólík reynsla leiðir til margs konar menningar og sundurleitrar. Samkvæmt Hönnu Ragnarsdóttur prófessor í fjölmenningafræði við HÍ,  eru öll þjóðfélög fjölmenningarleg vegna þess að ólík menning skapar fólk. Við komumst fyrst í kynni við menningu þegar við erum í móðurkviði, síðan annars konar menningu innan fjölskyldu okkar og svo loks þegar við eldumst og vöxum úr grasi er margvísleg menning að verki í kringum okkur.

    Hið fjölmenningarlega samfélag reynir að sætta gildi, kenningar, tákn og hefðir sem ríkjandi eru í hverju samfélagi og einnig þá krafta sem ævinlega eru að verki og þróast í öllum mannlegum félögum. Fólk, sem á sér sameiginleg verkefni og á sameiginlegt tungumál og trú, og hegðar sér með líkum hætti, getur unnið saman vegna þess að þeir þættir, sem eru líkir í fari fólksins, virka eins og lím sem bindur fólkið saman og stuðlar að því að það geti lifað saman. (Dewey, 2001).  Þess vegna er það lykill að vel heppnuðu samfélagi að finna og viðurkenna það sem er líkt á milli menningarheima. Þá geta börnin öðlast þá tilfinningu að þau tilheyri ákveðinni heild og verði þar með reiðubúin að búa með öðrum og læra í nýju umhverfi.

            Þar sem leikskólum er skylt að starfa á óháðan hátt, hvað snertir líkamlega eða andlega getu barnanna og jafnframt óháð menningu og trú, er mikilvægt að nota fjölbreytilegar leiðir til þess að styðja við börnin og hjálpa þeim að aðlagast leikskólamenningunni. Það þarf einnig að finna leiðir fyrir börnin til þess að þau geti samsamað sig margs konar fjölskylduformum og tungumálum. (Elsa Sigríður Jónsdóttir, 2010).

            Börnin mega ekki einangra sig frá menningu sem er ólík þeirra eigin en eiga þess í stað að læra af henni og kynnast henni til þess að efla félagslega virkni og gagnrýna hugsun. Börnin eiga að læra um ólíka menningarheima og fagna fjölbreytileikanum sem getur bætt og auðgað íslenskt samfélag. Börnin þurfa að eiga jafna möguleika að eignast góða vini sem geta stutt þau þegar þau eldast. 

 


 

Með því móti geta börnin eignast félagslegt tengslanet sem getur stuðlað að virkni þeirra í samfélaginu. Þegar börn nema við fjölmenningarlegar aðstæður læra þau að hafa jákvæða afstöðu gagnvart fjölbreytileika og öðlast þar með meiri lífsgæði.

 Enn fremur fá þau betri skilning og tileinka sér meira umburðarlyndi gagnvart ólíkum hugmyndum og hefðum. 


 

            Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt að leikskólakennarar þurfa að vera vel undirbúnir til þess að takast á við þá áskorun sem skapast hefur hérlendis með fjölmenningarsamfélagi. Framfarir í kennslumálum auðvelda kennurum að skilja víxláhrif milli kynþáttar, þjóðernis og tungumáls og áhrif þessa alls á þroska og nám barna (Banks, 2001). Af þessum sökum vill leikskólinn Lækur hvetja kennara sína til þess að endurmennta sig. 

Námið opnar augu kennaranna fyrir hinum mikla fjölbreytileika sem er ríkjandi á Íslandi og sýnir þeim hvernig leikskólinn endurspeglar hann. Námið eykur líka áherslu kennaranna á að nálgast öll börn á þeirra eigin forsendum. Fjölmenningarleg stjórn okkar miðar að því að hafa á að skipa öflugum kennurum sem skilja, umbera og virða öll börn.

Þjóðfélag sem sýnir virðingu

Gildi okkar hér á Læk eru virðing, umhyggja og sjálfstæði. Í samræmi við þessi gildi öxlum við með gleði þá ábyrgð að taka á móti og viðurkenna þá fjölbreytilegu menningu sem til er í okkar litla samfélagi. Markmið okkar á Læk, þar sem við vinnum fjölmenningarlegt starf, er að þar ríki almenn vellíðan og unnið sé í vinsamlegu umhverfi sem einkennist af samvinnu og virðingu fyrir börnunum og starfsfólkinu.

            Við leggjum okkur fram um að börn af öllum kynþáttum, þjóðerni, menningarheimum og tungumálum fái tækifæri til þess að leika sér saman í frjálsum leikjum við góðar aðstæður. Kennararnir skipuleggja þessa leiki og miða þeir að því að draga úr ótta og kvíða og örva börnin til þess að vinna saman. (Íslensk aðalnámskrá, 2011; Banks, 2001; Elsa Sigríður Jónsdóttir, 2001).

            Börnin er hvött til leiks og læra í blönduðum hópum með það að markmiði að þroska með sér félagslega hæfni.  Kennararnir beita fjölmenningarlegum aðferðum til að efla og styrkja vitsmunalega og félagslega getu barnanna. Börnin læra um það hvernig þjóðfélagið, sem þau búa í, er skipulagt og hvernig reynsla þeirra sjálfra er stundum ólík reynslu annarra barna en stundum einnig lík. Þetta eykur næmi þeirra gagnvart umhverfinu og styrkir sjálfsmynd þeirra. En jafnframt þessu átta börnin sig á hvað sé sameiginlegt milli menningarheima.

 

Lýðræði og vinátta

Lækur keppir að því að efla sjálfstæði barnanna og gagnrýna hugsun. En þar sem samvinna er skapandi ferli þarf að læra hana með markvissum aðferðum. (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2007). Þess vegna leitast Lækur við að þroska hæfileika einstaklingsins til þátttöku í lýðræðislegum samskiptum í samverustundum fyrir og eftir máltíðir. Þá gefst þeim einnig kostur á að iðka lýðræðislegar aðferðir á Barnaþingi. (Wolfgang Edelstein, 2010). 

Við sem rekum leikskóla, leggjum okkur fram við að kenna börnunum að nýta sérhvert tækifæri, sem gefst, til þess að standa með sínum jafningjum. Í upphafi spyrjum við: Hvar er barnið? Skilur barnið ekki neitt, eða talar barnið enga íslensku? Rannsóknir sýna að ef nemendur standa vel að vígi í íslensku, gengur þeim betur í skólanum og fleiri möguleikar standa þeim til boða á vinnumarkaðnum. (Íslensk aðalnámskrá, 2011). Af þessum ástæðum búum við til einstaklingsáætlun þar sem lögð er áhersla á málörvun og félagslega aðlögun. Börn sem ekki hafa náð tökum á íslensku fá sérstaka aðstoð til þess að efla máltökuna. Meginregla í sérkennslu er sú að grípa snemma inn í þegar þörf er á til að styðja við málþroska og félagsþroska barnsins

Við notum ólíkar aðferðir og mismunandi uppeldisfræðilegt námsefni gegn kynþáttafordómum og einelti, en eflum lýðræði og vináttusamböndsem einkenna fjölmenningarlegt samfélag. Sem dæmi um námsefni  má nefna Blær og Barnasáttmáli sem er sérstaklega hannað til þess að hvetja börnin til að virða hvort annað og meta hugmyndir annarra barna. 

 Þetta námsefni veitir börnum líka upplýsingar um réttindi þeirra.  

 

Á Læk notum við meðal annars: Lubbi, Orðaskil og Gefðu 10 til þess að örva tal og auka við orðaforðann í íslensku. Börn sem eru mjög fær í fleiri en einu tungumáli hafa tíma og tækifæri til þess að tala móðurmál sitt við aðra kennara. 

 Þessi börn eru hvött til þess að segja nokkur orð á sínu eigin máli í skólastofunni og jafnframt er brýnt fyrir þeim að þau eigi að vera stolt af menningu sinni og hefðum

 Þátttaka foreldra.

Foreldrar, sem tala önnur tungumál en íslensku heima fyrir, eru hvattir til þess að koma með bækur í skólann sem eru á þeirra eigin tungumáli svo að kennararnir geti lesið úr þessum bókum fyrir börnin þeirra. Meðan á aðlögunarferli barnanna stendur og einnig eftir að því lýkur þurfa foreldrar barnanna fyrst í stað meiri upplýsingar um það hvað leikskólinn getur veitt börnunum. 

Hin fjölmenningarlega stefna, sem rekin er af Kópavogsbæ, býður öllum foreldrum aðstoð til þess að skólaganga barna þeirra gangi að óskum. Þessi aðstoð getur bæði falið í sér túlkun og ráðleggingar varðandi ólíka menningarheima.

Lækur vill byggja upp góð og öflug samskipti við foreldra til þess að traust skapist á milli skólans og þeirra. Til eru ýmsar leiðir til þess að styrkja íslenska tungu í leikskólanum. Ef barn kann lítið í íslensku er hægt að útbúa orðabók með þeim orðum sem barnið kann og bæta síðan í bókina þeim orðum sem barnið lærir smátt og smátt. Kennarinn sendir síðan bókina heim til barnsins og foreldrarnir fá þá tækifæri til þess að fylgjast með því sem barnið er að læra.

 Kennararnir nota myndir og teikningar, sem sýna það sem fyrir augu ber, bæði á íslensku og erlendum málum til þess að auðvelda börnunum að læra orðin á sjónrænan hátt.

 

Áætlun vegna stefnu fjölmenningar.

Á námsárinu 2021–2022 gerir leikskólinn ráð fyrir að leggja  áherslu á fjölmenningarlega stefnu og að ná eftirfarandi markmiðum:

1.

 • Kanna hin fjölmenningarlegu tengsl sérhvers barns í því skyni að búa til einstaklingsmiðaða áætlun  í samvinnu við foreldrana.
 • Bjóða foreldrum að verja tíma í heimastofunni og/eða samverustundum í samvinnu við viðkomandi deildastjóra.
 • Að hafa námsefni aðgengilegt á rafrænu formi á móðurmáli viðkomandi barns og einnig á íslensku.
 • Kennarar sem hafa vald á móðurmáli tiltekins barns munu halda áfram að hjálpa barninu með því að lesa með því á móðurmáli þess og skipuleggja einnig leiki handa því á móðurmálinu.
 • Allar deildir leikskólans vinna með málörvunarverkefnið Gefðu tíu og sérkennslustjórar halda utan um skráningu.

2.

Að gera hið fjölmenningarlega samfélag leikskólans sýnilegri:

 • Skreyta inngang  leikskólans með fánum þeirra landa sem börnin eru ættuð frá  og letra þar með orði „Velkomin!“ 
 • Skrifa nokkur orð á veggi leikskólans á íslensku og öðrum málum til þess að efla tungumálanotkun og lestrargetu.
 • Taka ljósmynd af börnum sem eru af erlendu bergi brotin með viðkomandi flaggi í bakgrunni og hengja síðan myndirnar á vegg deilarinnar.
 • Kaupa bækur á öðrum tungumálum (en íslensku) handa kennurunum til þess að styðja við móðurmál barnsins.

3.

 • Til þess að efla alheimsvitund viljum við halda áfram alþjóðlegri samvinnu við e-twinning og/eða Erasmus.
 • Að koma á samvinnu við skóla erlendis til þess að læra þannig nýjar aðferðir.