Skipulag leikskólastarfs á tímum covid

Í þessari bylgju er áhersla lögð á óskert leikskólastarf. Leiðarljós okkar allra er að viðhalda og vernda starfið eins og kostur er, með velferð barna og starfsfólks okkar í huga. Ákvörðun um óskert leikskólastarf er sameiginleg með öllum sveitarfélögum og er í samræmi við tilmæli Almannavarna og sóttvarnaryfirvalda. Við þurfum því að laga okkur að þeim aðstæðum að þetta skólaár mun einkennast af sveiflum í smitum. Því getur fylgt að við þurfum að vera undir það búin að einstakar deildir eða allur leikskólinn fari í sóttkví. Það mun fylgja okkur í vetur.
Við getum ekki fyrirbyggt að smit berist inn í leikskólana en við getum með góðum sóttvörnum dregið úr líkum á að það berist innan leikskólanna, milli starfsmanna og milli starfsmanna og barna. Eins og sóttvarnalæknir hefur ítrekað bent á er mjög lítið um að smit séu að berast milli aðila innan skólanna og það er jafnframt reynsla okkar hér í Kópavogi. Það sýnir okkur að gott skipulag í leikskólum m.t.t. sóttvarna hefur haft jákvæð áhrif og við erum stolt af því.

Við höfum gert ýmsar breytingar á skipulagi starfsins í Læk til að draga úr blöndun milli hópa og lágmarka sameiginlega snertifleti. Tilgangurinn er bæði að draga úr líkum á að smit berist innan leikskólans og jafnframt að fækka þeim sem þurfa að fara í sóttkví ef upp kemur smit. Við getum þó ekki fyrirbyggt að við þurfum að takast á við að misstórir hópar nemenda fari í sóttkví.
Í Læk er leikskólanum skipt upp í þrjú hólf
A hólf Hvammkot, Þinghóll, afleysing, eldhús, leikskólastjóri og sérkennslustjóri Guðrún Matthildur.
B hólf Víghóll, Álfhóll, afleysing og sérkennslustjóri Anna Guðrún.
C hólf Laufið og Lyngið, afleysing, aðstoðarmatráður og aðstoðarleikskólastjóri Edda Guðrún.

Þegar upp kemur smit í leikskóla fer ákveðið ferli af stað sem einkennist af miklu samstarfi milli stjórnenda leikskólans og smitrakningateymis ríkislögreglustjóra. Til að byrja með er tekin ákvörðun um hverjir þurfa að fara í úrvinnslusóttkví meðan leikskólastjórnendur meta, í samráði við smitrakningateymi, hverjir þurfa að endingu að fara í sóttkví. Þeir sem fara í úrvinnslusóttkví eru því oft mun fleiri en þeir sem metið er að þurfi að fara í sóttkví. Upphaf sóttkvíar miðast við þann dag sem smitaður einstaklingur var síðast í skólanum. Sóttkví er skilgreind sem 14 dagar en hægt er að stytta hana með því að fara í sýnatöku eftir 7 daga og mæta í skóla ef niðurstaða reynist neikvæð og við miðum við að það sé gert í skólunum.

Kæru foreldrar, við þurfum að vinna vel saman á þessum tímum. Við hvetjum ykkur til að ræða við börnin ykkar um persónulegar sóttvarnir og nándarmörk. Einnig er gott að tala við börnin um líðan þeirra, hlusta og fræða. Við leggjum okkur fram um að vera góðar fyrirmyndir fyrir nemendur hér í leikskólanum og hvetjum ykkur foreldra til að halda því áfram heima.