Fréttir

Mikið um að vera í mars!

Vegna tæknilegra örðugleika koma myndir við þessa frétt inn seinna :)


Mars hefur heldur betur verið viðburðarríkur. Hann hófst á Öskudegi með búningadegi og balli í leikskólanum. Myndir frá þeim degi fengu að fljóta með í febrúarpistilinn sem má sjá hér að neðan.


Um miðjan mars fengum við góða vini úr Latabæ í heimsókn til okkar. Solla stirða og Íþróttálfurinn skemmtu börnunum í litla og stóra Læk við góðar undirtektir. Uppákoman var í boði foreldrafélagsins Grágæsar og kunnum við þeim góðar þakkir fyrir.


Þá var pylsudagurinn mikli haldinn hátíðlegur 17. mars. Í þeirri viku voru börnin í óða önn að föndra sér peninga, greiðslukort og að sjálfsögðu veski til þess að geyma greiðslumiðlana sína í. Settir voru upp pylsuvagnar og keyptu börnin sér pylsu og safa. Verðið var umsemjanlegt og allir fengu til baka. Börnin voru líka öll með PIN-númerin sín á hreinu þegar þau völdu að greiða með korti.


Í mars höfum við haft söngfundi á hverjum föstudegi í stóra Læk í stað fyrir að hafa hann eingöngu fyrsta föstudags hvers mánaðar. Söngfundir verða áfram með sama sniði á litla Læk en þau hafa verið að koma í heimsóknir til skiptis á söngfundia í stóra Læk eftir að þeim fjölgaði og er mikil ánægja með það fyrirkomulag. Lubbi kom til okkar með málhljóðin Ð, G, Æ og Ei/Ey og síðustu tvo fimmtudaga í mánuðinum áttum við Smárann. Í þetta sinn fóru árgangur 2011 og 2012 í sitthvoru lagi. Það er alltaf skemmtilegt að koma í Smárann og njóta þess að reyna á líkamann í skemmtilegu umhverfi.


Marsmánuð enduðum við svo á Rugldegi í tilefni 1. apríl. Það var ýmislegt öðruvísi en við eigum að venjast, kennarar í vitlausum samverstundum, grænt, rautt, blátt og gult vatn með hádegismatnum, kennarar í froskalöppum, börn í úthverfum fötum með nærbuxur á höfðinu og svo mætti lengi telja. Það var svo sannarlega skemmtilegt um að lítast.


Við tökum kát á móti apríl og minnum á að nú er farið að bjóða upp á morgunmat í stóra Læk frá 8:15-8:45. Í maí verður einnig farið að bjóða upp á morgunmat á litla Læk og hefur þessi nýbreytni fengið góðar viðtökur í foreldrahópnum.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica