Fréttir

Brúðubíllinn

Brúðubíllinn verður með sýningu á túninu við menningarhús Kópavogsbæjar laugardaginn 22. ágúst og hefst sýningin kl. 14:00. Sýningin er ókeypis og er henni ætlað að höfða til yngstu kynslóðarinnar. Sýningin heitir „Leikið með liti“  og Lilli, Úlli úlfur og fleiri brúður koma fram.

Tilvalið er að nýta tækifærið og skoða nýtt fræðsluefni um þörunga í Náttúrufræðistofu Kópavogs og kíkja svo við í Gerðarsafni þar sem stendur yfir nýstárleg sýning á þörungum sem lýsa í myrkvi. Einnig er opið í Bókasafni Kópavogs. Þeim, sem ætla á Menningarnótt Reykjavíkur, síðar um daginn er bent á að frá Hamraborg gengur strætóleið 1 beint niðrí miðbæ Reykjavíkur.

Brúðubíllinn nýtur mikilla vinsælda og er stjórnað af Helgu Steffensen. Sýningarnar eru til gleði, skemmtunar og fræðslu. Inntak þeirra er að við göngum vel um náttúruna, séum góð við blóm, dýr og börn og síðast en ekki síst séum góð hvert við annað.

Sýningin 22. ágúst er í boði menningarhúsa Kópavogsbæjar og eru allir hjartanlega velkomnir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica