Sími 441-5900

Fréttir

Fyrirsagnalisti

Aðventan í Læk

Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið í desembermánuði. Við byrjuðum jólamánuðinn á rauðum degi á litla Læk þann 1. desember en þann dag fóru börnin á stóra Læk í Guðmundarlund. Þar áttum við notalega stund saman og gæddum okkur á heitu súkkulaði og kleinum. Rauður dagur var svo haldinn í stóra Læk 8. desember.  


Í fyrstu viku desember vorum við með kirkjuferð og aðventukaffi fyrir börn og foreldra. Elsti árgangur leikskólans lék Helgileikinn fyrir okkur og við áttum notalega stund saman í Digraneskirkju. Eftir Helgileikinn var foreldrum boðið að þiggja veitingar í leikskólanum sem börnin á leikskólanum höfðu bakað. 

 

Jólaballið var svo á sínum stað þann 15. desember en þá fengum við að sjálfsögðu heimsókn frá jólasveinunum en þeir komu færandi hendi með mjúka pakka fyrir öll börnin. Að jólaballinu loknu var boðið upp á hátíðarmat að hætti kokksins.Elsti árgangurinn í Læk átti svo notalega jólastund með 1. bekkingum í Smáraskóla 18. desember. Í heimsókninni sungu þau nokkur lög, hlustuðu á jólasögu og unnu saman að jólaverkefni þar sem hvert barn útbjó handafar sitt sem var svo öllum raðað saman í eitt stórt jólatré.


Fleiri myndir má sjá á myndasíðum deilda.

Skipulagsdagur 6. október

Á skipulagsdaginn í Læk 6. október síðast liðinn var margt um að vera. Dagurinn byrjaði á sameiginlegum tarfsmannafundi þar sem ýmis málefni Lækjar voru rædd og hver deild fékk einnig tíma til að funda og skipuleggja starfið sitt. 


Eftir hádegið fengu starfsmenn fræðslu en þær Hrafnhildur Sigurðardóttir og Unnur Arna Jónsdóttir frá Hugarfrelsi kynntu fyrir okkur aðferðir og gögn sem hægt er að styðjast við í leik og starfi. Með Hugarfrelsi er átt við það frelsi sem hverjum manni er unnt að öðlast þegar hugurinn hefur ekki lengur neikvæð áhrif á daglegt líf. Frelsi frá áhyggjum, kvíða og ótta. Hugarfrelsi til þess að blómstra, frelsi til að nýta hæfileika sína sem best, frelsi til að velja hugsanir sínar sér og öðrum til gagns. Þessar aðferðir gagnast vel með ungum börnum þar sem þeim er eðlislægt að anda djúpt og vera í núinu. Þær stöllur munu svo fylgja fræðslunni eftir með heimsóknum og handleiðslu til okkar í vetur. Hér má sjá myndir frá deginum.
Haustfundur í Læk

Miðvikudaginn 4. október síðast liðinn var haldinn árlegur haustfundur fyrir foreldra barna í Læk. Foreldrafélagið Grágæs var með aðalfund þar sem kosið var í stjórn félagsins og einnig fóru þau yfir starfsárið og viðburði sem þau hafa staðið fyrir.


Þá fór María leikskólastjóri yfir mikilvæg málefni tengd leikskólanum áður en haldið var inn á hverja deild fyrir sig þar sem starfið var kynnt fyrir foreldrum.

Við þökkum þeim sem gáfu sér tíma til að koma kærlega fyrir komuna og ánægjulega samveru.


Skóladagatal litla Lækjar

VIð vekjum athygli á því að skóladagatal litla Lækjar er nú einnig aðgengilegt á heimasíðunni okkar.

Appelsínugulur dagur á morgun!

VIð hvetjum alla til að koma með eða í einhverju appelsínugulu á morgun :)

Skóladagatal Lækjar

Skóladagatal fyrir stóra Læk er nú aðgengilegt hér á heimasíðu skólans. Skóladagatal fyrir litla Læk er ekki alveg fullbúið en helstu viðburði má sjá á dagatali stóra Lækjar.  

Dagur læsis - 8. september

Þann 8. september síðastliðinn var dagur læsis en allt frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. 

Við í Læk tókum að sjálfsögðu þátt og buðum upp á "bóka bíó" í Mýrinni og vakti það mikla lukku meðal barnanna. Bóka bíó fer þannig fram að samtímis því sem kennari les bók fyrir börnin er blaðsíðum hennar varpað upp á skjá með myndvarpa eða skjávarpa.

Einnig horfðum við á myndband með söng um íslenska stafrófið og lögðum inn Lubba-málhljóðið A.

Velkomin í Læk!

Þessa vikuna hófst fyrsta aðlögun nýrra barna í Læk og viljum við bjóða börnin og foreldra þeirra hjartanlega velkomin til okkar um leið og við bjóðum þá sem hafa verið áður velkomna aftur eftir sumarfrí.

Skólaárið 2017-2018 ber margt spennandi í skauti sér og er verið að leggja lokahönd á skóladagatal fyrir þetta ár. Skóladagatalið verður birt við fyrsta tækifæri hér. Þá viljum við benda foreldrum á að hægt að nálgast ýmsar mikilvægar upplýsingar um skólastarfið í Læk hér á vinstri spássíðunni.

Undir liðnum "Námið" má nálgast upplýsingar um Vináttuverkefnið Blæ, námskrá Lækjar, starfsáætlun Lækjar og vinsamleg tilmæli fyrir afmælisveislur barnanna.

Undir liðnum "Áætlanir" má kynna sér áfallaáætlun, forvarnaráætlun og jafnréttisáætlun Lækjar ásamt verklagsreglum menntasviðs Kópavogs um viðbrögð við ofbeldi gagnvart börnum.

Undir liðnum "Athuganir" eru upplýsingar um þær stöðluðu skimanir sem lagðar eru fyrir öll börn í leikskólanum.

Þá má sjá hagnýtar upplýsingar um foreldrafélagið, matseðil leikskólans fyrir hvern mánuð og myndir og upplýsingar um starfsfólkið hér á yfirlitsstikunni efst á síðunni og atburðardagatal hér til hægri.

Hver deild er með sitt svæði fyrir fréttir og myndefni og verður lykilorð fyrir þetta skólaár gefið út fljótlega.

Við leggjum mikla áherslu á að foreldrar fylgist vel með upplýsingum á heimasíðunni okkar og hvetjum ykkur til að gefa ykkur tíma til að setjast niður með barninu ykkar og skoða myndir frá starfi leikskólans.Útiskóli hjá elstu börnunum

Síðustu ár hefur verið hefð fyrir því að elstu börnin í Læk útskrifist í lok maí og hefji nám í Útiskólanum okkar strax í júní. Þá eiga þau aðsetur á Lækjarvöllum, sem annars er nýttur sameiginlega af öllum deildum yfir vetrartímann. 


Námið i útiskólanum er fjölbreytt og byggist mikið á vettvangsferðum. Börnin koma með bakpoka og aukaföt með sér í leikskólann og smyrja sér gjarnan nesti áður en þau leggja af stað í langferðir. Í ár hafa börnin heimsótt Landhelgisgæsluna, Húsdýragarðinn, Kraftvélar, Ljósmyndasafnið, Árbæjarsafnið, farið í Maríuhella í Heiðmörk,farið upp í Hallgrímskirkjuturn, heimsótt fjölmarga leikvelli á höfuðborgarsvæðinu og nýtt það skemmtilega umhverfi sem Kópavogsdalurinn hefur upp á að bjóða.

Hér má sjá nokkrar myndir.

  

 

  


 

Sumarhátíð leikskóla Smárahverfis

Föstudaginn 23. júní var blásið til sameiginlegrar sumarhátíðar leikskólanna Lækjar og Arnarsmára. Löng hefð er fyrir hátíðinni og á hverju ári ríkir mikil eftirvæting fyrir þessum skemmtilega degi.


Dagurinn hófst með skrúðgöngu barnanna í Arnarsmára hingað niður að Læk. Þar bættumst við í hópinn og eldri börnin héldu áfram upp í Vinalund í brekkunni við Digraneskirkju en yngri börnin voru í garðinum á litla Læk. Þar skiptum við okkur í hópa og fórum á milli fjölbreyttra stöðva þar sem þurfti að leysa ýmislegar skemmtilegar þrautir. Hátíðin endaði svo á leiksýningu Götuleikhússins og grillveislu.

Við þökkum öllum á Arnarsmára fyrir skemmtilega samveru.

     Aðlögun á milli deilda og breytt fyrirkomulag með hádegismat

Júní hefur aldeilis farið vel af stað hér í Læk. Elsti árgangur fór í útiskóla og hefur aðsetur á Lækjarvöllum, hér á milli leikskólabygginganna. Þetta er þriðja árið sem við höfum þetta fyrirkomulag og hefur það reynst afar vel. 

Aðlögun frá miðdeildum yfir á eldri deildar lauk í síðustu viku og nú í þessari viku er aðlögun frá litla Læk yfir á stóra Læk að ljúka. Það eru viðbrigði fyrir þessi yngri að læra á nýtt húsnæði en þau hafa verið dugleg að koma í heimsóknir í vetur og það hjálpar til. 

Þá tókum við upp breytt fyrirkomulag með hádegismatinn í stóra Læk, svokallað matarflæði. Börnin eru vön svipuðu fyrirkomulagi í kaffitímanum hér seinnipartinn og hafa því tekið breytingunum vel. Hugmyndin er sú að skapa notalega stund í hádegimatnum þar sem færri börn koma saman í einu um leið og við eflum sjálfstæði þeirra og sjálfræði. Börnin skammta sér sjálf á diskana sína og velja sér á diskinn sinn. Þau hafa einnig frjálst val um sæti í matsalnum og geta gengið frá borði þegar þau hafa lokið við matinn í stað þess að þurfa að bíða eftir öðrum. Yngstu börnunum er boðið fyrst í matsalinn, þannig er tryggt að þau komist tímanlega í hvíld og fái þann svefn sem þau þurfa. Eldri börnin koma í matsalinn eftir því sem losnar um sæti í matsalnum. 


Hjóladagur

Á hverju ári höfum við eina viku tileinkaða umferð. Þá ræðum við um umferðarreglurnar og fræðumst um ýmislegt sem er gott að hafa á hreinu þegar útivera og vettvangsferðir skipa stóran þátt í leikskólastarfinu.


Þá hefur verið fastur liður í umferðarfræðslunni að hafa hjóladag fyrir tvo elstu árganga leikskólans og kíkir lögreglan gjarnan í heimsókn.

Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum.

Útskrift elstu barna

Útskriftarhátíð Lækjar var haldin 31. maí hér á sal skólans. María leikskólastjóri útskrifaði 25 börn við hátíðlega athöfn. Sýnd var myndbandsupptaka af útskriftarhópnum þar sem börnin svörðu spurningum um leikskólann. Þá sungu börnin nokkur vel valin lög, tóku á móti útskriftarskjali og ferilmöppunum sínum og fengu rós að gjöf frá foreldrafélaginu.


Útskriftarferð í Viðey

Í tilefni af útskrift fór elsti árgangurinn í útskriftarferð út í Viðey þann 24. maí. Ferðin var vel lukkuð og skemmtileg í alla staði. Gengið var um eyjuna, farið í fjöruna að vaða og grillað. Það voru þó fleiri en börnin sem voru þreytt í lok ferðar en rútan okkar réði ekki við álagið og tók upp á því að bila á leiðinni heim svo það má með sanni segja að þetta hafi verið ævintýri frá upphafi til enda. Fleiri myndir má sjá á myndasíðum Álfhóls og Víghóls.

 

 

Íþróttahátið Lækjar

Íþróttahátiðin okkar var haldin 23. maí og þar tóku allir þátt í allskonar skemmtilegum hreyfileikjum eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan. Fleiri myndir má sjá á myndasíðu hverrar deildar fyrir sig.

   

Lækur 23. ára!

Síðast liðinn fimmtudag, þann 11. maí, var haldið upp á 23. afmæli Lækjar með opnu húsi í leikskólanum. Deildarnar tóku á móti gestum með söngatriði og í kjölfarið var boðið upp á léttar veitingar. Leikskólinn var fagur skreyttur með listaverkum barnanna og var sannarlega glaðlegt um að litast.


Við þökkum ykkur kærlega fyrir komuna!

  

Afmæli leikskólans

Á morgun, 11. maí verður opið hús í leikskólanum frá klukkan 14:30-15:30 þar sem foreldrum, vinum og öðrum velunnurum skólans gefst kostur á að kíkja í heimsókn, þiggja léttar veitingar og skoða sýningu með verkum barnanna í tilefni af afmæli leikskólans.


Verið hjartanlega velkomin!

Mikið um að vera í mars!

Vegna tæknilegra örðugleika koma fleiri myndir við þessa frétt inn seinna :)

Mars hefur heldur betur verið viðburðarríkur. Hann hófst á Öskudegi með búningadegi og balli í leikskólanum. Myndir frá þeim degi fengu að fljóta með í febrúarpistilinn sem má sjá hér að neðan.

Um miðjan mars fengum við góða vini úr Latabæ í heimsókn til okkar. Solla stirða og Íþróttálfurinn skemmtu börnunum í litla og stóra Læk við góðar undirtektir. Uppákoman var í boði foreldrafélagsins Grágæsar og kunnum við þeim góðar þakkir fyrir.Þá var pylsudagurinn mikli haldinn hátíðlegur 17. mars. Í þeirri viku voru börnin í óða önn að föndra sér peninga, greiðslukort og að sjálfsögðu veski til þess að geyma greiðslumiðlana sína í. Settir voru upp pylsuvagnar og keyptu börnin sér pylsu og safa. Verðið var umsemjanlegt og allir fengu til baka. Börnin voru líka öll með PIN-númerin sín á hreinu þegar þau völdu að greiða með korti.

Í mars höfum við haft söngfundi á hverjum föstudegi í stóra Læk í stað fyrir að hafa hann eingöngu fyrsta föstudags hvers mánaðar. Söngfundir verða áfram með sama sniði á litla Læk en þau hafa verið að koma í heimsóknir til skiptis á söngfundia í stóra Læk eftir að þeim fjölgaði og er mikil ánægja með það fyrirkomulag. Lubbi kom til okkar með málhljóðin Ð, G, Æ og Ei/Ey og síðustu tvo fimmtudaga í mánuðinum áttum við Smárann. Í þetta sinn fóru árgangur 2011 og 2012 í sitthvoru lagi. Það er alltaf skemmtilegt að koma í Smárann og njóta þess að reyna á líkamann í skemmtilegu umhverfi.

Marsmánuð enduðum við svo á Rugldegi í tilefni 1. apríl. Það var ýmislegt öðruvísi en við eigum að venjast, kennarar í vitlausum samverstundum, grænt, rautt, blátt og gult vatn með hádegism

atnum, kennarar í froskalöppum, börn í úthverfum fötum með nærbuxur á höfðinu og svo mætti lengi telja. Það var svo sannarlega skemmtilegt um að lítast.

Við tökum kát á móti apríl og minnum á að nú er farið að bjóða upp á morgunmat í stóra Læk frá 8:15-8:45. Í maí verður einnig farið að bjóða upp á morgunmat á litla Læk og hefur þessi nýbreytni fengið góðar viðtökur í foreldrahópnum.

Febrúar kominn og farinn

Febrúar er eins og allir vita stysti mánuður ársins. Við hér í Læk nýttum hann vel og brölluðum ýmislegt skemmtilegt okkur til dægrastyttingar. Þann 6. febrúar var opið hús hjá okkur í tilefni af Degi leikskólans. Foreldrar og aðrir velunnarar skólans nýttu tækifærið og tóku þátt í leikskólastarfinu með börnunum sínum. 

17. febrúar var hið árlega Dömukaffi í tilefni af Konudeginum, en þá var mömmum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum boðið í kaffi og kleinur með leikskólabarninu sínu. 
Á bolludaginn var boðið upp á fiskibollur í hádeginu og rjómabollur í kaffitímanum. Mánuðurinn endaði svo með hvelli  á sprengidegi þar sem allir átu yfir sig af saltkjöti og baunum.

Við leyfum myndum frá Öskudeginum að fljóta með þó að hann hafi borið upp í mars þetta árið.